top of page
  • Instagram
  • Black Facebook Icon

Fjórða umferð til Íslandsmeistara í motocrossi - Akureyri 2025

  • Writer: Sverrir Jonsson
    Sverrir Jonsson
  • Aug 12
  • 6 min read

Fjórða umferð til Íslandsmeistara í motocrossi fór fram laugardaginn 9 júlí og var bráðskemmtilegt mót haldið á vegum KKA á Akureyri. Sólin var eitthvað í felum þennan dag, en það skipti ekki máli þar sem sól og gleði var í hugum þátttakanda og gestum á mótinu enda ekki hægt annað þar sem allt var upp á 10 hjá þeim fyrir norðan.

52 keppendur voru skráðir til leiks og þakkar maður þeim fyrir þátttökuna því án þeirra og aðstandanda sem eru að standa í þessu með þeim, að þá væri ekkert mót. Ekki má gleyma að nefna sjálboðaliða hjá félögunum sem standa að einstökum keppnum í mótaröðinni. Mjög óeigingjarnt starf unnið af þeirra hálfu í þágu sportsins.


MX unglinga var stærstur af einstökum flokkum að ræða og er hasarinn mikill þegar keppni stendur sem hæst. MX-B datt út sökum þátttökuleysis og var öllum þeim keppendum sem skráðu sig í þann flokk fluttir í A flokk og ræstu því með MX1 og MX2.


Tímatakan hófst um níuleytið og fyrsta moto-ið í kvennaflokki hófst upp úr ellefu. Keppni lauk svo formlega um fimmleytið og voru keppendur þá búnir að keyra tímatöku plús þrjú moto yfir daginn og ekki laust við að þreyta væri farin að segja til sín hjá keppendum enda brautin orðin nokkuð slitin eftir daginn.


“Alexander Adam Kuc sigraði í MX1, Eric Máni Guðmundsson í MX2 og Sóley Sara M. David sigraði í kvennaflokki".

Alexander Adam, eða Lexi eins og við köllum hann, var með sýnikennslu á Akureyri og snýtti öllum öðrum án þess að finna fyrir því. Sá aðili sem veitti honum hvað harðast keppni var í MX2, eða hann Eric Máni Guðmundsson og er það helst hann sem er að stríða Lexa þar sem Máni Pétursson er fjarverandi vegna meiðsla og Eiður Orri Pálmason er að einbeita sér að breska meistaramótinu. Ingvar Sverrir Einarsson varð annar og Hilmar Már Gunnarsson varð þriðji. Hilmar gerði sér það líka að leik að verða hlutskarpastur í 35+ flokknum og fór því með fangið fullt af bikurum heim.


Í 65cc mættu 8 keppendur til leiks og sigraði Máni Mjölnir Guðbjartsson eftir harða keppni við Viktor Ares Eiríksson sem hefur verið að koma sterkur til leiks eftir því sem líður á mótið. Gabríel Leví Ármansson varð svo þriðji. Það er mjög gaman að fylgjst með þessum yngstu keppendum og ljóst að ekkert er gefið eftir á þeim bæ. Ég endurtek það sem ég sagði síðast að það er fullt af 65cc hjólum þarna úti og er það mín skoðun að þeir drengir og stúlkur sem eiga slík hjól myndu gjarnan vilja upplifa þá gleði sem fylgir því að taka þátt í svona keppnum. Skora ég hér með á foreldra þeirra að gefa börnunum tækifæri og leyfa þeim að keppa til að kanna hvort þau hafi áhuga á þessu til framtíðar. Það finna sig ekki allir í fót- eða handbolta


85 flokkurinn er alltaf mjög skemmtilegur að horfa á en það er hann Olivier Cegielko sem virðist hafa þetta allt í hendi sér eftir að Ísmael Ísak Michelsson féll út vegna meiðsla og sigraði hann nokkuð örugglega en það var mjög ánægjulegt að sjá hann Aron Dag Júlíusson aftur á ráslínu en hann meiddi sig í annarri umferð og hefur batinn hjá drengnum verið nánast lygilegur. Umræddur Aron Dagur varð annar og svo varð hann Halldór Sverrir Einarsson þriðji, en hann og Aron Dagur kepptu grimmt um annað sætið. Ég er enn á því að Halldór eigi meira inni og hefur hann bætt sig mikið frá því í fyrra. Drengurinn virðist hafa holuskotið í genunum frá pabba sínum því hann er í 85% tilvika fyrstur í fyrstu beygju.


Mikil barátta var í unglingaflokknum en þar er keppendum tvískipt og er sérstök stigakeppni fyrir þá sem keppa á 144-125cc tvígengishjóli og svo aftur á móti MX2 þar sem 250cc fjórgengishjólin eru alls ráðandi. Í tvígengisflokknum var það Arnór Elí Vignisson sem varð hlutskarpastur en á hæla hans voru þeir Andri Berg Jóhannsson og Máni Bergmundsson. Andri Berg og Arnór Elí háðu harða baráttu og unnu sitt hvort moto-ið til að byrja með og var það því þrijða moto-ið sem úrskurðaði sigurvegara dagsins sem eins og áður segir varð hann Arnór Elí sem er stundum að keyra alveg fáranlega flott.


Í MX2 unglinga var það Sigurð Bjarnason sem landaði sigri að lokum eftir harða baráttu við Tristan Berg Arason þar sem sama var upp á teningnum og hjá þeim Arnóri Elí og Andra Berg í tvígengisflokknum. Ég endurtek það sem ég hef áður sagt, að hann Siggi Bjarna er undantekningarlaust með geggjaðar ræsingar og var hann með holuskotið í öll þrjú skiptið í mótinu. Í þriðja sæti varð svo Stefán Ingvi Reynisson sem hefur bætt sig mikið í sumar og er aðeins að narta í þá Sigga Bjarna og Tristan.


Í MX2 var það Eric Máni Guðmundsson var sterkastur og rúllaði þessu upp að venju þetta árið. Í öðru sæti varð Alex Þór Einarsson og í því þriðja Sindri Már Bergmundsson. Alex Þór er farin að finna sig aðeins betur í þessum flokki og sést það á því hvernig hann hjólar. Var hann í það minnsta helv... góður á heimavellinum á laugardaginn. Sindri Már hefur líka bætt sig mjög mikið frá í fyrra og er gaman að sjá framfarirnar hjá þessum drengjum.


Í kvennaflokknum bar það helst til tíðinda að Sóley Sara M. David valtaði yfir aðra keppendur og áttu þeir ekki séns í hana, en Sóley var að keppa í fyrsta sinn í sumar eftir hlé. Eva Karen Jóhannsdóttir og Kristín Ágústa Axelsdóttir voru í baráttu um annað sætið og hafði Eva Karen betur. Kristín Ágústa er alltaf að verða betri og betri og eru framfarir á milli keppna hjá stelpunni sem á framtíðina fyrir sér ef hún heldur áfram. Björk Erlingsdóttir, aka "brjálaða Bína" varð svo fjórða og fékk viðurkenningu í 35+ flokki.


Skemmtileg tilbreytni átti sér stað þegar að ungir ökumenn á 50cc hjólum fengu að hjóla 2 hringi í brautinni (að hluta) að lokinni keppni og þótti þeim greinilega mikið til koma þar sem þau voru hvött áfram með lófataki áhorfenda. Ekki frá því að nokkrir þeirra hafi spurt, "mamma, hvenær má ég svo taka þátt í alvöru keppni". Var það áskorun KKA fólks og hvatning til annarra félaga í MSÍ að þau gerðu slíkt hið sama á sínum keppnum


Sigurvegarar


Hér má sjá sigurvegara dagsins eftir hverjum flokk fyrir sig en nánari upplýsingar um hvert moto eða tímatöku má finna með að smella á þennan hlekk. Hér fyrir neðan birti ég eingöngu flokka sem gilda til Íslandsmeistara.


  1. Alexander Adam Kuc (leiðir til Íslandsmeistaratitils)

  2. Ingvar Sverrir Einarsson

  3. Hilmar Már Gunnarsson

  1. Eric Máni Guðmundsson (leiðir til Íslandsmeistaratitils)

  2. Alex Þór Einarsson

  3. Sindri Már Bergmundsson

  1. Arnór Elí Vignisson (leiðir til Íslandsmeistaratitils)

  2. Andri Berg Jóhannsson

  3. Máni Bergmundsson

  1. Sigurður Bjarnason (leiðir til Íslandsmeistaratitils)

  2. Tristan Berg Arason

  3. Stefán Ingvi Reynisson

  1. Olivier Cegielko (leiðir til Íslandsmeistaratitils)

  2. Aron Dagur Júlíusson

  3. Halldór Sverrir Einarsson

  1. Máni Mjölnir Guðbjartsson (leiðir til Íslandsmeistaratitils)

  2. Viktor Ares Eiríksson

  3. Gabríel Leví Ármannsson

  1. Sóley Sara M. David

  2. Eva Karen Jóhannsdóttir (leiðir til Íslandsmeistaratitils)

  3. Kristín Ágústa Axelsdóttir

Hægt er að skoða stöðuna til Íslandsmeistara árið 2025 og eldra með að smella hér. Nánar upplýsingar má einnig finna á síðu Mótorhjóla & vélsléðasambands Íslands, www.msisport.is.


Hér má sjá myndir frá keppninni en þær má einnig finna á Flickr þar sem ég geymi þær til geymslu en bæði vefhýsingaraðili síðunnar og fésið hafa verið til vandræða með að birta og geyma myndir. Mjög einfalt að flétta þeim beint hér í greininni með því að nota takkana með örvunum til hliðar ← →

Tekið skal fram að eingöngu voru teknar ljósmyndir í fyrsta moto-i og ef þú áttir ekki góðan dag eða varst ekki með af einhverjum sökum, að þá er ekki til mynd af þér. Þó ég taki eingöngu úr fyrsta moto-i dagsins, að þá eru þetta samt rúmlega þrjúþúsund myndir að fara í gegnum. Að hripa eitthvað niður eftir hverja keppni er eitthvað sem ég get ekki lofað því andinn þarf að vera til staðar.


Braut UMFS í Bolaöldum 16 júlí

Næsta keppni fer fram á vegum UMFS og fer sú keppni fram í moldarbrautinni í Bolaöldum en UMFS fékk hana til umráða af hálfu VÍK eftir að brautin þeirra var lokað vegna vegaframkvæmda en við þær framkvæmdir, datt brautin í bænum út af aðalskipulagi bæjarins. Er þetta í annað sinn sem keppt verður til Íslandsmeistara í þessari braut en keppnin í fyrra var afar vel heppnuð og voru keppendur mjög sáttir við brautina. Nú leggst maður bara á bæn og vonar að það bætist í keppendahópinn því það er nóg af hjólum þarna úti og nóg af hjólafólki. Spurning um að færa goðunum fórnir :)


Til allra sjálfboðaliða sem komu að keppnistandinu um helgina og að sjálfsögðu ykkur, keppendum þar sem án ykkar væri engin keppni, að þá vill ég segja "Takk fyrir okkur" og takk fyrir þá vinnu sem þið leggið á ykkur svo við og aðrir getum leikið okkur.

Comments


© 2007 by MOTOSPORT.IS. Proudly created with Wix.com

bottom of page