Ísmael Ísak leggst í víking og gerir tveggja ára samning við Yamaha Svíþjóð
- Sverrir Jonsson 
- Oct 22
- 4 min read
Ísmael Ísak Michaelsson David gerði á dögunum tveggja (2) ára samning við Yamaha í Svíðþjóð. Þar með sannast að öskubusku ævintýrin geti gerst fyrir íslenska ökumenn og er þetta í fyrsta sinn sem íslenskur ökumaður aðeins fjórtán ára gamall gerir slíkan samning, svo ég viti til. Mun Ísmael Ísak keppa í sænska meistaramótaröðinni næstu tvö (2) sumur ásamt því að hann mun keppa í bresku mótaröðinni þar sem hann verður í samfloti við hann Eið Pálmason. Samtals stendur sænska mótaröðin af átta (8) keppnum yfir sumartímann.
Það þarf vart að taka fram að um mikinn heiður er að ræða fyrir Ísmael Ísak og sýnir svo um getur að íslenskir ökumenn geta orðið gjaldgengir í erlend lið. Yamaha í Svíþjóð hefur úr fjöldan allan að ökumönnum að velja úr, bæði innanlands sem og svo annars staðar í Evrópu. Að drengurinn skuli landa svo díl er ekkert annað en frábært og sannar að eitthvað rétt er að gerast í þessu sporti á Íslandi og að ungir ökumenn frá Íslandi að fá samninga erlendis.
Yamaha í Svíþjóð er eitt stærsta lið Yamaha í Skandinavíu og gera út einn ökumann í MX1 eins og við þekkjum, tvö ökumenn í MX2 og svo verður hann Ísmael Ísak eini ökumaðurinn á 125cc hjá liðinu og mun hann fá allan þeirra stuðning ásamt full útbúnu Yamaha GYTR hjóli, til að keppa í sænsku meistaramótaröðinni. Munu Yamaha í Svíþjóð einnig útvega honum æfingahjól, þannig að hann ætti alltaf að hafa aðgang að tveimur fullbúnum hjólum. Með í för verður stóri Yamaha Blu Cru trukkurinn á öllum keppnum, þannig að upplifin hans ætti svo sannarlega að vera mikil.
“Yamaha í Svíþjóð er eitt stærsta lið Yamaha í Skandinavíu".
Það er því ljóst að við munum lítið sjá til hans í keppnum í íslensku mótaröðinni því keppnishaldið hér heima skarast á við sænsku mótaröðina, sem er synd því það hefur verið mjög gaman að sjá hann keppa. En að sjálfsögðu skilur maður það þegar svona kall kemur að stokkið sé til. Mun þetta þýða að fjölskyldan verður á ferð og flugi næstu tvö árin. Michael Benjamín, pabbi hans, mun fylgja honum alla mótaröðina og verða þeir því með heimili í Svíþjóð frá maí og alveg fram í september. Mikið skipulag mun fylgja þessu fyrir fjölskylduna sem þegar hafa gert ráðstafanir um að hefja æfingar á Spáni í vetur til að nýta tímann vel þar til sænska meistaramótaröðin byrjar í maí á næsta ári.

Fyrir þá sem þekkja ekki til, að þá er þetta bráðhuggulegur ungur drengur sem hefur alltaf verið mjög kurteis og hjálpsamur af því sem við þekkjum til. Ég tók strax eftir honum þegar hann byrjaði að hjóla ungur að aldri og sá maður framfarir hjá honum ár eftir ár. Hann byrjaði að keppa í 65cc keppnum hér heima á vegum klúbbana sem sérstakleg voru haldnar fyrir 65cc, en þá var 65cc flokkurinn ekki orðin hluti af íslensku meistaramótaröðinni. Þar sá maður mikið efni á ferð sem síðan hefur sprungið út síðustu tvö árin. Varð hann annar til Íslandsmeistara í 85cc flokki árið 2024 og leiddi hann Íslandsmeistaramótið í 85cc flokki í ár, eða allt þar til hann lærbrotnaði í júní í æfingaferð um landið. Þrátt fyrir það að hann væri frá keppni eftir lærbrot, að þá sá Yamaha í Svíþjóð ástæðu til að næla sér í þennan unga frábæra ökumann.

Ísmel Ísak keppti fyrir hönd Íslands í haust í MXoN fyrir yngri ökumenn sem haldið er árlega og er keppt með sama fyrirkomulagi og er í fullbúnu MXoN mótaröð sem við þekkjum sem fylgjumst með í þessu sporti. Náði hann þar sjötta (6) sæti í úrslita moto-inu (supar finals) sem haldin var í "Ironman" brautinni í Bandaríkjunum þetta árið en þar er hann að keppa við þrjá bestu frá hverju landi á heimsvísu. Það verður að teljast helv... gott hjá ökumanni sem steig aftur á hjól eftir lærbrot nánast kortér í brottför en bati drengsins hefur verið undraverður og hann hefur sýnt ótrúlega þrautseigju og dugnað í að koma sér aftur til baka eftir meiðslin. Hlýtur að taka Lýsi alla daga :).
Ísmael og framtíðin
Hvað þýðir þetta nú allt saman og hvernig mun þetta verða í framtíðinni? Stórt er spurt og höfundur er ekki mikill spámaður en ég tel þó að ef drengurinn með stuðningi fjölskyldu sinnar heldur áfram á sömu braut og verður meiðslafrír, að þá sé honum allt fært og gæti hann endað að verða fyrsti íslenski ökumaðurinn sem keppir í MXGP á heimsvísu í MX1. Að sjálfsögðu vill ég sjá hann fara alla leið og verða einn sá besti ef ég mætti ráða, en ég get eingöngu sent honum góða strauma og vonað það besta fyrir hans hönd. Það er hann sjálfur sem hefur þetta allt í hendi sér.
Það er alveg ljóst að þetta sýnir að með áræðni, dugnaði og endalausum æfingum að þá næst árangur. Það hefur fjölskyldan sýnt síðustu ár og ósjaldan hefur maður séð þá feðga saman á æfingum. Þetta sýnir einnig að eitthvað er verið að gera rétt í þessu sporti og að barna- og unglingastarf klúbbana, sér í lagi VÍK, er að skila þessum árangri þar sem við eigum núna nokkra unga drengi sem eru að keppa vídd og breitt um heiminn fyrir lið þarna úti í hinum stóra heimi.
Það hryggir mann því mikið að sjá það skilningsleysi sem þessari íþrótt er sýnt af hálfu stjórnvalda og sveitarfélaga en nú nýlega hefur ríkisstjórn Íslands sett fram tillögur að fella niður undanþágu vörugjalds á keppnistæki, sem loksins hafðist í gegn eftir margra ára baráttu við ríkið fyrir nokkrum árum. Það mun þýða samdrátt í sölu á hjólum sem leiðir til færri ökumenn og því minni líkur á að við munum fá aðila til að feta í fótspor eins og t.d. Ísmael Ísaks.
Skora ég svo á fólk að fylgjast með íslenskum keppendum sem eru að keppa á erlendri grundu eins og Ísmael Ísak, Eiður Pálmason og Aron Dagur. Lifið heil og áfram piltar!





Comments