top of page
  • Writer's pictureSverrir Jonsson

Katoom allur!

Í dag, miðvikudaginn 13 mars, kveðjum við stórmeistara!

Laugardaginn 2 mars er mikill sorgardagur en þá barst okkur til eyrna þær sorgarfréttir að Karl Gunnlaugsson, sem flestir þekkja sem Kalli í KTM og oft kallaður "Katoom", hafi orðið bráðkvaddur á heimili sínu aðfaranótt laugardags 2 mars.  Enn þann dag í dag eigum við erfitt með að meðtaka það að við eigum ekki eftir að hitta Kalla aftur í okkar jarðlífi.  Okkur hafði orðið vel til vina frá því að við kynntumst þó svo að við lágum ekki á hurðahúninum hjá hvort öðru alla daga.


Ég, Sverrir, hitti Kalla í fyrsta sinn þegar ég kom til hans í KTM verslunina þegar hún var stödd í Nethyl.  Var ég að forvitnast um KTM 400 EXC hjól sem mig langaði í.  Þetta var á því herrans ári 2006.  Mikil erill var í versluninni og verið að afgreiða hjól hægri, vinstri til væntanlega kaupanda sem nýbúið hafði verið að standsetja.  Kalli hafði varla tíma til að ræða við mig en við áttum stutt spjall áður en hann hvarf á braut þar sem einn viðskiptavinurinn var komin til að sækja sitt hjól og hver veit á hvaða lit fjölskyldan hefði endað á, ef spjallið hefði farið á annan veg.


Stórmeistari fallinn frá!

Fljótlega eftir þessi kynni mínum af Kalla varð ég meðstjórnandi í  Vélíþróttaklúbbinum VÍK og sat þar er Kalli í stjórn ásamt nokkrum eðalmönnum.  VÍK var þá og er enn þann dag í dag stærsti klúbburinn á Íslandi í þessu sporti og hefur verið leiðandi í mörg ár.  Þarna kynntist ég Kalla vel en eitt af þeim stóru verkefnum sem  VÍK stóð fyrir var að halda Klausturskeppnina góðu, sem því miður er liðin undir lok í dag.  Leiðir okkar áttu eftir að skarast í mörg ár eftir þetta þar sem fljótlega eftir þetta varð ég einnig meðstjórnandi í MSÍ ásamt að sitja í stjórn VÍK en Kalli var þá einnig meðstjórnandi í MSÍ.  Í stjórnarsetu minni varð Kalli síðar formaður MSÍ.


Kalli kom ætíð mér fyrir sjónir sem heiðarlegur gaur, sanngjarn og vildi sportinu fyrir bestu.  Það sem ég kunni einna best við hann Kalla var að við gátum tekist hart á í rökræðum og það gerðum við oft, en þegar umræðunni lauk að þá var hann fyrsti aðili til að vera tilbúin að spjalla um daginn og veginn eða einfaldlega hittast yfir mat og köldum Thule.  Já, kaldur Thule átti oft eftir að koma við þegar við hittumst hin síðari ár en það var orðið að að hefð, að ég fer heim til þeirra hjóna á aðfangadag til að skiptast á gjöfum og var mér ávallt tekið fagnandi með flatkökum með soðnu hangikjöti ásamt köldum Thule til að skola niður.


Kalli var mikill matgæðingur og voru þau hjón góðir gestgjafir.  Sonur okkar Óliver minnist þess enn hversu góðan mat hann fékk þegar hann kom með okkur eitt sinn í boð og naut þar gestrisni þeirra hjóna. Að mínu mati var það alltaf upplifun að koma til þeirra til að njóta samvista ásamt að njóta góðra veitinga sem þau framreiddu af mikilli snilld.  Kalli var eins og ein risastór alfræði orðabók sem hægt var að flétta í langt aftur í tímann um allt sem sneri að sportinu.  Skipti engu hvort um var að ræða regluverk eða eitthvað sem hafði átt sér stað í sportinu, alltaf var hægt að stóla á Kalla til að muna eða þekkja til hvað þetta varðar.


Kalli var líka mikill sprellikarl og oftar en ekki gerði hann stólpagrín af sjálfum sér, okkur hinum til mikillar skemmtunnar. Já, hann var ófeiminn við að taka lífinu ekki of alvarlega og alltaf var stutt í grínið.

Kalli hafði mikið dálæti á tónlist og öllum var það ljóst að hann var mikill aðdáandi hljómsveitarinnar Eagles.  Eitt kvöld er við hjón vorum í heimsókn hjá þeim hjónum, að þá vildi Kalli endilega leyfa mér að heyra einhver lög og kanna hvort ég kannaðist við hljómsveitina eða lagið.  Úr varð mikil skemmtun og mér til happs, að þá gat ég öll lögin ásamt nöfn hljómsveitanna og var Kalli harðákveðin eftir kvöldið að við félagarnir ættum að taka þátt saman í "Kontrapunkti" en fyrir þá sem ekki þekkja, að þá var þetta þáttur í danska ríkissjónvarpinu, að mig minnir, þar sem keppendur fengu það erfiða verkefni að giska á höfund laga í klassískri tónlist. Björk, aka brjálaða Bína, og Helgu eiginkonu Kalla hefur orðið vel til vina í gegnum tíðina og oftar en ekki deila sorgum og gleði hvors annars.  Hin síðari ár hefur Björk setið í stjórn MSÍ og þar á meðal stjórnarmanna var Kalli, en hann hefur nýlátið af stjórnarsetu.  Það þarf engum að undra að brjálaða Bína og Kalla varð vel til vina og þurfti "Bínubúlla" alltaf að eiga til SS pylsur og Diet kók fyrir Kalla á keppnum þó að aðrir máttu sætta sig við að fá pylsur frá samkeppnisaðila sem oft styrktu keppnina.  Björk sá alltaf til þess að Kalli fengi sína SS pylsu og Diet kók.  Í hvert sinn sem þau hittust eða hann kom við í "Bínubúllu", að þá sönglaði hann allaf , "Bína, Bína brjálaða" og hafði breytt viðlaginu úr laginu "Græna byltingin" með Spilverki þjóðanna.

 

Kalli sinnti mörgum trúnarðarstörfum fyrir sportið okkar og var einn að máttarstólpum MSÍ en hann var mikill hvatamaður að stofnun þeirra samtaka ásamt fleirum og má þar nefna t.d. Sniglana svo eitthvað er nefnt.  Kalli hefur einnig verið sá aðili sem hefur hvað mest verið í tengslum við alþjóðasamtökin, FIM, og systra samtök okkar í Skandinavíu fyrir hönd MSÍ.  Allt til síðasta dags var Kalli að sinna trúnaðarstörfum fyrir okkar hönd  og var með puttann á púlsinum.


Þín verður sárt saknað...

Það er mikill missir í fráfalli Kalla og er það mjög erfitt að ímynda sér að við eigum ekki eftir að hittast aftur kæri vinur.  Þó ekki sé nema að renna niður einum ísköldum Thule. Í minningunni sitja skemmtilegar stundir þar sem oftar en ekki var mikið hlegið og skemmtilegar umræður áttu sér stað um alla mögulega hluti. Já, lífið er núna. 


Við, MotoSport.is fjölskyldan, kveðjum þig með miklum trega elsku vinur og segjum að lokum þar sem þú leikur þér vonandi í sumarlandinu, "fulla gjöf og engar bremsur". Til Helgu, Gulla, Stefaníu og annarra aðstandanda sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur og það er óhætt að segja að einn af máttarstólpum sportsins hafi lagt skónna endanlega á hilluna.


"Deyr fé, deyja frændr,

deyr sjalfr it sama,

en orðstírr deyr aldregi,

hveim er sér góðan getr.

 

Deyr fé, deyja frændr,

deyr sjalfr it sama,

ek veit einn, at aldrei deyr:

dómr um dauðan hvern".


Bless Kalli og hvíl í fríð…503 views0 comments

Comments


bottom of page