top of page
  • Writer's pictureSverrir Jonsson

Önnur umferð til Íslandsmeistara í motocrossi - Akranesi 2023

Updated: Jul 15, 2023

Önnur umferð til Íslandsmeistara í motocrossi fór fram laugardaginn 8 júlí og var bráðskemmtilegt mót haldið á vegum Vélíþróttaklúbbs Akranes (VIFA) upp á skaga. Keppnin fór fram á Akranesi í brakandi blíður og voru aðstæður til keppni mjög góðar framan af en brautin slitnaði hratt og varð erfið eftir því sem á leið. Einnig var orðið mikið ryk sem byrgði keppendum sýn og þá sérstaklega í startinu.


Rúmlega 70 keppendur voru skráðir til leiks. Kvennaflokkurinn var stærstur af einstökum flokkum að ræða, sem er gaman að segja frá því ekki er mikið af ungum nýjum iðkendum í kvennaflokki.


Í þetta skipti var veðurguðinn okkur mjög hliðhollur og var einróma veðurblíða þennan dag, steikjandi hiti og nánast alveg logn, sem gerist ekki oft. Tímatakan hófst um níuleytið og fyrsta moto-ið í kvennaflokki hófst upp úr ellefu. Keppni lauk svo formlega um fimmleytið og voru keppendur þá búnir að keyra tímatöku plús þrjú moto yfir daginn og ekki laust við að þreyta væri farin að segja til sín hjá keppendum enda brautin orðin nokkuð slitin eftir daginn.


“Máni Freyr Pétursson sigraði auðveldlega í MX1, Eiður Orri Pálmarson í MX2 og Aníta Hauksdóttir sigraði í kvennaflokki.

Því miður var Eyþór Reynisson ekki með vegna alvarlegs slyss í fyrstu umferð ársins en hann mætir tvíefldur til leiks eins og venjulega. Máni Freyr Pétursson var yfirburðamaður í MX1 og ljóst að hann verður erfiður við að eiga í sumar. Er hann efstur til stiga til Íslandsmeistara í MX1 og er það gaman fyrir hann þar sem hann keppir á nýrri tegund sem ekki hefur áður verið keppt á hér á landi en það er hjólategundin Fantic sem er í grunninn Yamaha með "dash" af smá auka frá Fantic. Mjög gaman var að sjá Einar Sigurðsson aftur í keppni en hann tók fram skónna eftir hlé og keppti á Hondu í þetta skipti en Einar og Honda eiga samleið frá barnæsku og vann hann sinn fyrsta titil í 85 flokki á Hondu CRF150, ef ég man rétt. Mér finnst hann þó alltaf fallegastur á bláu hjóli :).


Aðalkeppni dagsins var eiginlega á milli Eiðs Orra Pálmarsonar og Mána Freys Péturssonar sem kepptur hart sín á milli, þó þeir eru ekki í sama flokki en MX1 og MX2 ræsa saman. Eftir frábæran akstur, að þá varð það að lokum Eiður Orri Pálmason sem stóð uppi sem sigurvegari í MX2. Mikil barátta var í unglingaflokknum en þar er keppendum tvískipt og er sérstök stigakeppni fyrir þá sem keppa á 144-125cc tvígengishjóli. Þar hafði Kári Siguringason sigur og Eric Máni Guðmundsson landaði sigri í sínum flokki eftir harða baráttu við Eiðs Pálssonar. Minnir Eric Máni mig mikið á son minn í akstri, Óliver Örn. Ekki ólíkur stíll á þeim.


Í kvennaflokknum var engin Sóley Söru M David til að keppa við Anítu Hauksdóttir en Aníta sigraði mjög örugglega og er engin keppandi sem getur veitt henni keppni eins og staðan er í dag. Í kvennaflokki 30+ varð það Björk Erlingsdóttir sem varð hlutskörpust en hún og Theodóra Björk Heimisdóttir eru nú jafnar að stigum til Íslandsmeistara.


Sigurvegarar


Hér má sjá sigurvegara dagsins eftir hverjum flokk fyrir sig en nánari upplýsingar um hvert moto eða tímatöku má finna með að smella á þennan hlekk. Þar má einnig finna upplýsingar úr "hobbý" flokk en hér fyrir neðan birti ég eingöngu flokka sem gilda til Íslandsmeistara.


MX1 flokkur:

  1. Máni Freyr Pétursson

  2. Arnar Elí Benjamínsson

  3. Einar Sigurðsson

MX2 flokkur:

  1. Eiður Orri Pálmarsson

  2. Alexander Adam Kuc

  3. Ingvar Sverrir Einarssonar

Unglingaflokkur (aldur 14-18 ára):

  1. Eric Máni Guðmundsson

  2. Eiður Pálsson

  3. Gabríel Geir Haraldsson

Unglingaflokkur (aldur 14-18 ára, 144-125cc tvígengis):

  1. Kári Siguringason

  2. Sigurður Bjarnason

  3. Óskar Már Ágústsson

85 cc flokkur (aldur 10-14 ára):

  1. Andri Berg Jóhannsson

  2. Arnór Elí Vignisson

  3. Ísmeal Mikaelsson

Kvennaflokkur (opin flokkur):

  1. Aníta Hauksdóttir

  2. Guðfinna Pétursdóttir

  3. Ásta Petrea Sívertsen

Kvennaflokkur 30 plús (eldri en 30 ára):

  1. Björk Erlingsdóttir

  2. Theodóra Björk Heimisdóttir

  3. Ragnheiður Brynjólfsdóttir


Hægt er að skoða frekari úrslit með að smella hér. Nánar upplýsingar má finna á síðu Mótorhjóla & vélsléðasambands Íslands, www.msisport.is.



Máni Freyr Pétursson í MX1 í fyrsta moto-i

Hér á myndinni má sjá Mána Freyr Pétursson í fyrsta moto-i dagsins en Máni sigraði nokkuð örygglega í MX1.


Tekið skal fram að eingöngu voru teknar ljósmyndir í fyrsta moto-i og ef þú áttir ekki góðan dag eða varst ekki með af einhverjum sökum, að þá er ekki til mynd af þér þar sem við erum einnig að taka upp fyrir sjónvarpið (RÚV) svo hægt sé að birta efni um keppnina í íþróttafréttum. Slík umfjöllun skiptir miklu máli fyrir sportið okkar og tökum við myndbönd úr 2 og 3 moto-i til að sýna á RÚV.


Sárt saknað...

Það er mikill missir að sjá þá sem voru hvað bestir í 85 og 125cc flokki í fyrra ekki vera með í ár og er þeim sárt saknað. En þarna á ég við Stefán Samúel Sverrison og Svan Þór Heiðarsson ásamt Gesti Natan Gestsson. Þessir keppendur ættu nú að vera að keppa í MX unglinga. Vonandi sjáum við þá aftur keppa og koma í næstu keppni.


Akureyri 22 júlí

Næsta keppni fer fram á Akureyri í frábæru og bráðskemmtilegu svæði KKA manna. Hlökkum til að sjá sem flesta fyrir norðan og veit ég að margir eru á leið norður um helgina til að æfa sig.


Til allra sjálfboðaliða sem komu að keppnistandinu um helgina og að sjálfsögðu ykkur, keppendum þar sem án ykkar væri engin keppni, að þá vill ég segja "Takk fyrir okkur" og takk fyrir þá vinnu sem þið leggið á ykkur svo við og aðrir getum leikið okkur.


Hægt er að sjá myndir frá keppninni með að smella á þennan hlekk. Vonandi gest mér tími til að setja saman smá myndband frá keppninni á næstunni og birta í komandi viku.

Recent Posts

See All
bottom of page