top of page
  • Instagram
  • Black Facebook Icon

Fyrsta umferð til Íslandsmeistara í motocrossi - Ólafsvík 2025

  • Writer: Sverrir Jonsson
    Sverrir Jonsson
  • Jun 15
  • 5 min read

Fyrsta umferð til Íslandsmeistara í motocrossi fór fram laugardaginn 14 júní og var bráðskemmtilegt mót haldið á vegum Motocrossklúbbs Snæfellsbæjar. Keppnin fór fram við góðar aðstæður og ef það er eitthvað sem hægt var að kvarta yfir, að þá var það að þurrkur var búin að há keppnishaldara við undirbúning og þrátt fyrir góðan vilja heimamanna með tilkomu slökkviliðsins sem reyndu að bleyta í brautinni, að þá var hún orðin ansi þurr í restina með tilheyrandi ryki.


Um 45 keppendur voru skráðir til leiks og er þetta með því allra minnsta sem ég hef upplifað frá því að við byrjuðum í þessu sporti árið 2006. Vantaði allt of marga "usual suspect" á ráslínu en það verður ekki af þeim tekið sem mættu og gerðu daginn góðan. MX unglinga var stærstur af einstökum flokkum að ræða og er hasarinn mikill þegar keppni stendur sem hæst. MX-B datt út sökum þátttökuleysis og var öllum þeim keppendum sem skráðu sig í þann flokk fluttir í A flokk og ræstu því með MX1 og MX2.


Tímatakan hófst um níuleytið og fyrsta moto-ið í kvennaflokki hófst upp úr ellefu. Keppni lauk svo formlega um fimmleytið og voru keppendur þá búnir að keyra tímatöku plús þrjú moto yfir daginn og ekki laust við að þreyta væri farin að segja til sín hjá keppendum enda brautin orðin nokkuð slitin eftir daginn.


“Alexander Adam Kuc sigraði í MX1, Eric Máni Guðmundsson í MX2 og Karen Arnardóttir sigraði í kvennaflokki.

Ísmael Ísak Michaelsson og Aron Dagur Júlíusson í harðri baráttu í fyrsta moto-inu
Ísmael Ísak Michaelsson og Aron Dagur Júlíusson í harðri baráttu í fyrsta moto-inu

Það var engin Eiður Orri Pálmarson til að hrella þá Mána Frey Pétursson og Alexander Adam Kuc sem börðust grimmt að vanda en svo fór að Lexi (Alaxender) hafði Mána undir og varð í fyrsta sæti í MX1 og Máni varð að sætta sig við annað sætið. Ingvar Sverrir Einarsson varð svo þriðji.


Í 65cc mættu 4 keppendur til leiks og sigaði Máni Mjölnir Guðbjartsson með nokkrum yfirburðum. Það er fullt af 65cc hjólum þarna úti og er það mín skoðun að þeir drengir og stúlkur sem eiga slík hjól myndu gjarnan vilja upplifa þá gleði sem fylgir því að taka þátt í svona keppnum. Skora ég hér með á foreldra þeirra að gefa börnunum tækifæri og leyfa þeim að keppa til að kanna hvort þau hafi áhuga á þessu til framtíðar.


85 flokkurinn var mjög skemmtilegur að horfa á en hann Ísmael Ísak Michaelsson var hlutskarpastur eftir daginn. Hefur pilturinn tekið miklum framförum á milli ára og einstaklega gaman að fylgjast með honum hjóla. Þeir Olivier Cegielko og Aron Dagur Júlíusson er nýliðar í flokknum og koma upp úr 65cc flokknum. Það var ekki að sjá að þeir væru nýliðar og ljóst að sú keppnisreynsla sem þeir hafa aflað sér með þátttöku í 65cc keppnum hérlendis sem og erlendis er að skila sér hjá piltunum og gáfu þeir eldri og reyndari ökumönnum ekkert eftir.


Mikil barátta var í unglingaflokknum en þar er keppendum tvískipt og er sérstök stigakeppni fyrir þá sem keppa á 144-125cc tvígengishjóli og svo aftur á móti MX2 þar sem 250cc fjórgengishjólin eru alls ráðandi. Í tvígengisflokknum var það Andri Berg Jóhannsson hlutskarpastur en á hæla hans voru þeir Arnór Elí Vignisson og Máni Bergmundsson. Í MX2 unglinga var það Sigurð Bjarnason sem landaði sigri að lokum eftir harða baráttu við Ketil Frey Eggertsson sem því miður krassaði feitt í síðasta moto-i dagsins þar sem keppt var til sigurs þeirra á milli. Ekki er vitað hvernig líðan hans Ketils er þessa stundina en hann var fluttur með sjúkrbíl af keppnisstað. Í öðru sæti varð Tristan Berg Arason sem hefur bætt sig mikið milli ára og svo var það Númi Möller Pétursson í því þriðja


Í MX2 var það Eric Máni Guðmundsson var sterkastur og sigraði nokkuð örugglega. Í öðru sæti varð Alex Þór Einarsson og í því þriðja Sindri Már Bergmundsson.


Í kvennaflokknum bar það helst til tíðinda að Karen Arnardóttir var aftur mætt til leiks eftir nokkra ára hlé við barnseignir og má segja að hún hafi engu gleymt. Hafði hún sigur að lokum eftir mikla baráttu við Evu Karen Jóhannsdóttir sem varð að sætta sig við annað sætið. Nýliði dagsins, Kristín Ágústa Axelsdóttir, varð þriðja en það var mjög gaman að fylgjast með henni og heyrði greinarhöfundur í henni í fyrsta moto-inu þar sem hún hreinlega öskraði af gleði hvað þetta væri gaman og eru það engar ýkjur.


Sigurvegarar


Hér má sjá sigurvegara dagsins eftir hverjum flokk fyrir sig en nánari upplýsingar um hvert moto eða tímatöku má finna með að smella á þennan hlekk. Hér fyrir neðan birti ég eingöngu flokka sem gilda til Íslandsmeistara.


MX1 flokkur:

  1. Alexander Adam Kuc

  2. Máni Freyr Pétursson

  3. Ingvar Sverrir Einarsson

MX2 flokkur:

  1. Eric Máni Guðmundsson

  2. Alex Þór Einarsson

  3. Sindri Már Bergmundsson

Unglingaflokkur (aldur 14-18 ára, 144-125cc tvígengis):

  1. Andri Berg Jóhannsson

  2. Arnór Elí Vignisson

  3. Máni Bergmundsson

MX2 - Unglinga (aldur 14-18 ára, 250cc fjórgengis):

  1. Sigurður Bjarnason

  2. Tristan Berg Arason

  3. Númi Möller Pétursson

85 cc flokkur (aldur 12-14 ára):

  1. Ísmael Ísak Michaelsson

  2. Olivier Cegielko

  3. Halldór Sverrir Einarsson

65 cc flokkur (aldur 10-12 ára):

  1. Máni Mjölnir Guðbjartsson

  2. Viktor Ares Eiríksson

  3. Gabríel Leví Ármannsson

Kvennaflokkur (opin flokkur):

  1. Karen Arnardóttir

  2. Eva Karen Jóhannsdóttir

  3. Kristín Ágústa Axelsdóttir

Hægt er að skoða frekari úrslit með að smella hér. Nánar upplýsingar má finna á síðu Mótorhjóla & vélsléðasambands Íslands, www.msisport.is.


Hér má sjá myndir frá keppninni en þær má einnig finna á Flickr þar sem ég geymi þær til geymslu en bæði vefhýsingaraðili síðunnar og fésið hafa verið til vandræða með að birta og geyma myndir. Mjög einfalt að flétta þeim beint hér í greininni með því að nota takkana með örvunum til hliðar ← →


Tekið skal fram að eingöngu voru teknar ljósmyndir í fyrsta moto-i og ef þú áttir ekki góðan dag eða varst ekki með af einhverjum sökum, að þá er ekki til mynd af þér. Þó ég taki eingöngu úr fyrsta moto-i dagsins, að þá eru þetta samt rúmlega þrjúþúsund myndir að fara í gegnum. Að hripa eitthvað niður eftir hverja keppni er eitthvað sem ég get ekki lofað því andinn þarf að vera til staðar.


Sárt saknað...

Við erum nokkrum keppendum færri það sem af er ári vegna meiðsla sem hafa komið upp og eru það nánast í öllum flokkum. Má segja að það vanti hátt í 20 manns á ráslínu að jafnaði ef tekin er saman sá fjöldi sem hefur meiðst og þeir sem ákáðu að taka sér frí þetta árið vegna t.d. barnaeigna eða eitthvað annað.


Akranes 28 júní

Næsta keppni fer fram í nýrri og bráðskemmtilegri braut VÍFA upp á skaga. Sú keppni, sem haldin hefur verið árlega til margra ára, þykja oftast einstaklega skemmtilegar þar sem brautin er nokkuð hröð og hæfa öllum aldursflokkum. Vonandi bætist nú aðeins í hópinn frá síðustu keppni en til þess að keppni beri sig, að þá þarf að lágmarki 60 keppendur að skrá sig til leiks


Til allra sjálfboðaliða sem komu að keppnistandinu um helgina og að sjálfsögðu ykkur, keppendum þar sem án ykkar væri engin keppni, að þá vill ég segja "Takk fyrir okkur" og takk fyrir þá vinnu sem þið leggið á ykkur svo við og aðrir getum leikið okkur.

Commentaires


© 2007 by MOTOSPORT.IS. Proudly created with Wix.com

bottom of page