Fjórða umferð til Íslandsmeistara í motocrossi fór fram laugardaginn 10 ágúst og var bráðskemmtilegt mót haldið á vegum UMFS í Álfanesi en þetta er "nýja" brautin sem UMFS hefur tekið af af VÍK í Bolaöldum. Keppnin fór fram við topp aðstæður og aldrei þessu vant var veður mjög gott og nutu keppendur sem og aðstandendur veðurblíðunnar.
Tæplega 60 keppendur voru skráðir til leiks og er þetta minnsta þátttaka sumarsins, sem er miður því þeir sem sátu heima misstu af góðum degi. MX unglinga var stærstur af einstökum flokkum að ræða og er hasarinn mikill þegar keppni stendur sem hæst. MX-B datt út sökum þátttökuleysis og var öllum þeim keppendum sem skráðu sig í þann flokk fluttir í A flokk og ræstu því með MX1 og MX2. Var nokkur kurr í þeim keppendum sem skráðu sig í B flokk en enduðu í A en allt fór vel fram að lokum engu að síður og góður dagur að kveldi komin.
Að venju hófst tímatakan um níuleytið og fyrsta moto-ið í kvennaflokki hófst upp úr ellefu. Keppni lauk svo formlega um fimmleytið og voru keppendur þá búnir að keyra tímatöku plús þrjú moto yfir daginn.
“Eiður Orri Pálmarson sigraði auðveldlega í MX1, Eric Máni Guðmundsson í MX2 og Aníta Hauksdóttir sigraði í kvennaflokki.
Eiður Orri Pálmarson kom, sá og sigraði í MX1 eins og venja er þetta árið og er hann á fullu húsi stiga eftir fjórar keppnir af fimm þetta árið. Drengurinn er búin að vera frábær í allt sumar, undantekningarlaust með góðar ræsingar en sér einnig tækifæri til framúraksturs þegar aðrir veru fastir. Stóra spurningin er hvort hann klári tímabilið ósigraður. Máni Freyr Pétursson og Alexander Adam Kuc fundu hvorn annan að vanda en svo fór að Máni hafði betur í þetta skiptið varð í öðru sæti í MX1 og Lexi varð að sætta sig við þriðja sætið. Máni ekki æft eins mikið þetta árið og áður þar sem námið sem hann er í dag er krefjandi og tekur tíma.
Í 65cc mættu fimm keppendur til leiks í þetta skiptið og fóru niður um þrjá frá Akureyri. Olivier Cegielko sigraði því nokkuð örugglega í þetta skiptið þrátt fyrir að fara á granirnar í fyrsta moto-i. Máni Mjölnir Guðbjartsson varðar annar og Gunnar Aron Kristfórsson varð þriðji. Oliovier Cegielko leiðir stigakeppnina til Íslandsmeistara og er með 26 stiga forskot á Mána Mjölnir Guðbjartsson. Hægt að skoða stöðu til Íslandsmeistara með að smella hér.
Í 85cc stóð baráttan á milli Arnór Elí Vignisson og Ísmael Ísak Michaelsson David og eins og frá Akureyri að þá hafði Arnór Elí betur en Ísmael fór á granirnar í tvígang í fyrsta moto-i og hugsanlega hefur púlsinn verið orðin aðeins of hár eftir fyrsta fallið og hugurinn ætlað að vinna þetta strax upp á fyrstu beygjunum eftir upprisu úr fyrsta fallinu en það er sama hvað hugurinn segir, þú getur bara keyrt einn hring í einu. Halldór Sverrir Einarsson varð í þriðja sæti og hraðinn alltaf að aukast hjá pilti og er ég að vona að hann blandi sér betur í topp baráttuna í síðustu keppni ársins sem haldin verður í MotoMos laugardaginn 31 ágúst. Þessir þrír leiða Íslandsmótaröðina í þessari röð eins og úrslitin segja til um. Er Arnór Elí með 23 stiga forskot á Ísmael Ísak. Hægt að skoða stöðu með að smella hér.
Mikil barátta var í unglingaflokknum en þar er keppendum tvískipt og er sérstök stigakeppni fyrir þá sem keppa á 144-125cc tvígengishjóli og svo aftur á móti MX2 þar sem 250cc fjórgengishjólin eru alls ráðandi. Í tvígengisflokknum var það Kári Siguringason hlutskarpastur en á hæla hans voru þeir Ketill Freyr Eggertsson og Óli Jökull Bentsson. Í stigakeppninni til Íslandsmeistara leiðir Kári Siguringason með 14 stigum á næsta mann sem er Ketill Freyr og því getur allt gerst í síðustu keppni ársins þar sem 75 stig eru í pottinum fyrir fyrsta sætið. Hægt að skoða stöðu dagsins með að smella hér. Í MX2 unglinga var það Alex Þór Einarsson sem hafði betur við félaga sinn og norðanmann Sigurð Bjarnason sem varð að sætta sig við annað sætið, en Alex hefur verið að hafa betur eftir að hann skipti yfir á GasGas. Árni Helgason varð síðan þriðji. Í stigakeppninni sjálfri er mjög hörð baraátta á mill Alex og Sigurðar og munar einungis 3 stigum á milli þeirra. Það er því ljóst að keppninn í MotoMos þann 31 ágúst er hrein úrslitarimma þeirra á milli. Númi Möller Pétursson sem er í þriðja sæti til Íslandsmeistara er 65 stigum á eftir Sigurði en hægt er að skoða stöðu með að smella hér.
Í MX2 var það Eric Máni Guðmundsson var sterkastur og sigraði nokkuð örugglega en þar á eftir varð það Leon Pétursson sem varð annar. Kristinn hvers son sem hann er nú var í þriðja sæti en eftirnafn hans kemur ekki fram í kerfinu og þykir mér það því óviðunandi að ég feðri hann einhverjum sem veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið og fær rukkun upp á meðlagsgreiðslur fyrir síðustu 18 árin. Nei, nei en öllu grínu slepptu að þá væri nú ágætt að Kristinn eða sá sem skráir hann til keppni uppfæri nafn hans en ég hélt að ekki væri hægt að koma einungis undir fornafni þegar allt er orðið háð kennitölum og rafrænum skilríkjum. Hvað Íslandsmeistara varðar að þá situr Eric Máni nokkuð örugglega í fyrsta sæti og þeir Leon Pétursson og Kristinn "ófeðraður" í næstu á eftir. Munar 42 stigum á Eric Mána og Leon. Hægt að skoða stöðu dagsins hér.
Í kvennaflokknum var það Anítu Hauksdóttir sem sigraði en í þetta skiptið var það ekki án keppni. Ásta Petra Sívertsen sigraði nefnilega fyrsta moto og varð Aníta önnur. Í öðru moto-i fór Ásta Petra á granirnar en náði að vinna sig upp í annað sætið og því ljóst að þriðja og síðasta moto-ið væri úrslit þeirra á milli. En í síðasta moto-i slitnaði bensínbarki hjá Ástu og þar með var hún úr sögunni þetta skiptið. Ekki í fyrsta sinn sem hún lendir í einhverjum ógöngum vegna óstöðugleika í hjólum. Silja Haraldsdóttir sá þá um að veita Anítu harða keppni í síðasta moto-inu og með smá heppni hefði hún getað sigrað. En Aníta hafði þetta og Silja Haraldsdóttir varð önnur. Gamla tuggann Björk Erlingsdóttir gerði sér lítið fyrir og endaði þriðja "overall" ásamt að verða hlutskörpust 40+ í kvennaflokknum. Aníta leiðir stigakeppnina nokkuð örugglega og þyrfti nánast kraftaverk fyrir Ástu til að ná að velta henni úr sessi. Þriðja sætið stendur á milli Silju og Bjarkar en það munar einungis 11 stigum á milli þeirra. Hægt að skoða stöðu með að smella hér.
Sigurvegarar
Hér má sjá sigurvegara dagsins eftir hverjum flokk fyrir sig en nánari upplýsingar um hvert moto eða tímatöku má finna með að smella á þennan hlekk. Þar má einnig finna upplýsingar úr "B" flokk en hér fyrir neðan birti ég eingöngu flokka sem gilda til Íslandsmeistara.
MX1 flokkur:
Eiður Orri Pálmarsson
Máni Freyr Pétursson
Alexander Adam Kuc
MX2 flokkur:
Eric Máni Guðmundsson
Leon Pétursson
Kristinn "án föðurnafns"
Unglingaflokkur (aldur 14-17 ára, 144-125cc tvígengis):
Kári Siguringason
Ketill Freyr Eggertsson
Óli Jökull Bentsson
MX2 - Unglinga (aldur 14-17 ára, 250cc fjórgengis):
Alex Þór Einarsson
Sigurður Bjarnason
Árni Helgason
85 cc flokkur (aldur 12-14 ára):
Arnór Elí Vignisson
Ísmeal Mikaelsson
Halldór Sverrir Einarsson
65 cc flokkur (aldur 10-12 ára):
Olivier Cegielko
Máni Mjölnir Guðbjartsson
Gunnar Aron Kristdórsson
Kvennaflokkur (opin flokkur):
Aníta Hauksdóttir
Silja Haraldsdóttir
Björk Erlingsdóttir
Hægt er að skoða frekari úrslit með að smella hér. Nánar upplýsingar má finna á síðu Mótorhjóla & vélsléðasambands Íslands, www.msisport.is.
Mynd af Eiði Orra Pálmasyni frá Akranesi þetta ár en hann hefur átt fjandi gott ár
Tekið skal fram að eingöngu voru teknar ljósmyndir í fyrsta moto-i og ef þú áttir ekki góðan dag eða varst ekki með af einhverjum sökum, að þá er ekki til mynd af þér.
Sárt saknað...
Við erum nokkrum keppendum færri það sem af er ári vegna meiðsla sem hafa komið upp og eru það nánast í öllum flokkum. Má segja að það vanti hátt í 20 manns á ráslínu að jafnaði ef tekin er saman sá fjöldi sem hefur meiðst og þeir sem ákáðu að taka sér frí þetta árið vegna t.d. barnaeigna eða eitthvað annað.
MotoMos 31 ágúst
Næsta keppni fer fram í MotoMos sem er einstök braut að því leytinu til að þar sjá áhorfendur yfir alla brautina frá klúbbhúsinu og er þetta ein af fáum brautum landsins sem veitir slíka sýn á sjálfa keppnina. Þetta er jafnframt síðasta keppni ársins og því ljóst að nýir Íslandsmeistarar verða krýndir þann dag. Við vonum að við munum sjá sem flesta og að fólk komi til að skemmta sér og sýna sig og sjá aðra.
Til allra sjálfboðaliða sem komu að keppnistandinu um helgina og að sjálfsögðu ykkur, keppendum þar sem án ykkar væri engin keppni, að þá vill ég segja "Takk fyrir okkur" og takk fyrir þá vinnu sem þið leggið á ykkur svo við og aðrir getum leikið okkur.
Hægt er að sjá myndir frá keppninni með að smella á þennan hlekk og færist þú þá á svæði mitt hjá Flickr en motosport.is síðan er komin í geymslu vandræði hjá núverandi þjónustuaðila með tilheyrandi plássleysi að ég neyðist til að flytja ykkur yfir á Flickr svæði mitt. Hugsanlega þurfið þið að lifa við þetta í sumar en að uppfæra hjá þjónustuaðila kostar litlar 160 þúsund ISK á núverandi gengi með 50% tilboðs afslætti...
Comments