top of page
  • Writer's pictureSverrir Jonsson

Er framtíðin rafmögnuð?

Updated: Dec 15, 2021

Stórt er spurt og fátt um svör, en framtíðin ein mun leiða í ljós hvort framtíð sportsins ráðist á breyttum orkugjafa. Eitt er þó víst, að frekari hömlur mun verða sett á starfsemina í óbreyttri mynd sökum mengunar, hvort sem um sé að ræða vegna hávaða eða mengandi efna frá hjólunum.


Það eru mjög skiptar skoðanir um ágæti rafmagnshjóla og margir, sérstaklega af eldri kynslóðinni, segja að allt "fútt" sé horfið úr sportinu ef hávaðin og lætin fá ekki að fylgjast að. Hvað er gaman að horfa á ræsingu 40 hjóla þegar það má heyra saumnál detta? Veit ekki, hef aldrei upplifað slíkt en það er satt að nokkur hluti upplifunnar sem áhorfandi skynjar er þegar spennan magnast við við aukin hávaða þegar hjólin er þaninn rétt fyrir ræsingu. Þetta er svona svipað eins og þegar allir eru "VÁ!" yfir ræsingu í formúlu 1 sem er hjóðið.


“Á síðustu 10 árum hefur yfir 20% af öllum motocrossbrautum, eða einn af hverjum fimm, verið lokað í Evrópu sökum hávaða. Með hljóðlausum hjólum sem eru án hljóðmengunnar bensínhjóla væri hægt að enduropna flestar ef ekki allar þessar brautir aftur”

Er þá hægt að búa til svipaða upplifun áhorfenda og spennu með hjólum sem ekkert heyrist í? Í stuttu máli segi ég nei, en í staðin munum við hugsanlega fá inn nýjan hóp áhorfenda sem finnst þessi rafmagnaði veruleiki vera jafn sjálfsagður og að skrúfa vatn frá krana. Til samanburðar að þá man ég þá tíð þegar það mátti reykja á skemmtistöðum. Á öllum stöðum "í den" var blanda af tóbakslykt og áfengi og það fór ekkert á milli mála þegar heim var komið, að þú varst að koma af skemmtistað. Í dag má ekki reykja á skemmtistöðum en í staðin anga staðirnir af prumpulykt, áfengi og misgóðum rakspírum... Að sjálfsögðu er seinni kosturinn betri upp á heilsu að gera og ég man líka hvernig það var að vinna við þessar aðstæður á þessum stöðum. Þú vaknaðir alltaf eins og þú værir skelþunnur þó þú drykkir ekki dropa sökum tókaksins sem reykt var. En samt, fyrir svona gamla, krumpaðan og skældan karl eins og mig, að þá rekur maður oftast rogstans í þessu fáu skipti sem maður fer inn á svona staði í dag og hugsar með sér, "Ojj... Djö... skítalykt maður. Mikið saknar maður lyktarinnar af blönduðu tóbaki og áfengi".


Ég held að upplifunin verði ekki mjög frábrugðin ef farið verði úr bensínhjólum yfir í rafmagnshjól. Allir munu viðurkenna að þetta sé betra fyrir umhverfið og bla,bla, bla, en... Allir gömlu hundarnir munu svo segjast sakna spennunnar sem myndaðist við samblöndun á hávaða og bensínlyktar sem fyllti loftið. Margir munu meira að segja ganga svo langt að fullyrða að þetta sé eins og vera orðin heyrnalaus einstaklingur að horfa á keppni þar sem þú nemur eingöngu keppnina í gegnum augun en hljóðið er sett á "mute".Saga rafmagnshjóla í sportinu


Ja, þetta er nú svo sem ekki í fyrsta skipti sem koma fram áhugaverð hjól og KTM hefur t.d. boðið upp á rafmagnshjól í nokkur ár, eða KTM E-XC Freeride, með ágætis árangri. Hjólið hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina en síðustu tvö ár hefur það fengið mjög góða dóma fyrir aksturseiginlega og afl. En eins og nafnið gefur til kynna, að þá er þetta ekki "hard-core" motocrosshjól né endurohjól, heldur einhvers konar blendingur af trialhjóli og trailhjóli (slóða) með drægni upp á 100 km (+/-). Aðrir framleiðendur hafa komið og farið jafnhratt eins og menn skipta um brækur. Engin hefur eiginlega enst í þessu sökum skorts á fjármagni til að halda þetta út.


Að vísu kom fram framleiðandi sem var til staðar í um 10 ár en gaf svo upp laupana upp úr 2019 einmitt vegna fjárhags erfiðleika, en það var Alta Motors. Josh Hill keppti með ágætis árangri á motocrosshjóli frá þessum framleiðanda í Red Bull Straight Rhythm árið 2016 og 2017 keppti hann á þessu hjóli í supercrosskeppni í Genúa í Sviss og hélt þar vel í þá bestu. Hjólið átti að keppa sérstaklega við KTM 350 SXF motocrosshjólið en hafði ekki árangur sem erfiði og markaðshlutdeild þess var lítil sem engin og að lokum gaf fyrirtækið upp öndina. Þó þetta hjól væri langt frá því að vera fullkomið að þá var þarna loksins komið fram hjól sem gat haldið í aðrar topp tegundir motocrosshjóla. Helsta vandamálið var kostnaður, en þessi hjól voru dýr í samanburði við önnur hjól, og að vinna tiltrú markaðarins.


Nýtt sænskt fyrirtæki blæs til sóknar

Síðustu daga og sérstaklega í dag hafa verið að birtast fréttir af enn einum nýjum framleiðanda rafmagnshjóla sem ætlar sér að keppa við bensínfákana, en það hjól hefur fengið það virðulega nafn "Stark Varg". "Varg" á sænsku er heiti yfir úlf og lauslega þýtt má því segja að hjólið heiti "sterkur úlfur". Þetta hjól hefur verið að fá mikla athygli sökum hönnunar og hvað framleiðendur segja að það geti gert en þeir fullyrða að þarna sé komið hjól sem er öflugra en hvert einasta fjölda framleidda 450cc hjól sem er á markaði í dag. Já, það er aldeilis upp á þeim typpið í svíaríki. En þessum fullyrðingum halda þeir kokhraustir í kynningarmyndbandi með hjólinu og ætla ég ekkert að gera þeim upp lygar.


Hjólið er rétt rúm 108 kg og á að skila að hámarki 80 hestöflum (HP). Já, þið lásuð þetta rétt en til samanburðar að þá eru kraftmestu 450 hjólin í dag með bensínmótor að skila í kringum 53-55 HP í dyno. Ástæðan fyrir þessu mikla afli er að sögn Svía að hámarkstog skilar sér í miðbik aflkúrfunnar og því hefði verið farið þessa leið því betra er að eiga afl en vanta, en að vanta afl en ekki eiga eða einhvern vegin svona röfla þeir í kynningarmyndbandinu. Ég verð þó að segja Svíum til hrós að hönnunin er einkar áhugaverð og sérstaklega möguleikar hjólsins til aðlögunar að kröfum ökumanns en þú getur tjúnnað hjólið til á alla kanta, allt frá að hafa það sem algjört skrímsli í að verða algjör kettlingur. Verð á svona hjóli er um 1.768.500 ISK á núverandi gengi án aðflutningsgjalda.
Annað sem vekur sérstakan áhuga minn á þessu, þó svo að ég viðurkenni fúslega að ég kann ágætlega við bensínfnykinn og hávaðann, er að í þessum hjólum er engin stimpill, engin kúpling þannig að allt viðhald er ekki mikið meira en að viðhalda hefðbundnu rafmagnshjóli sem flestir ættu að vera farnir að þekkja í dag. Já, þú þarft ekki lengur að vera vélvirki til þess að geta stundað þetta sport og hver hefur ekki einhvern tímann lent í því að allt heila helv... klappið hafi hrunið á raunarstundu með tilheyrandi kostnaði og bölvi? Það má til gamans geta að Josh áður nefndur Hill er einmitt búin að taka þátt í þessu verkefni með Svíunum vegna reynslu sinnar af hjólinu frá Alta Motor. Önnur fullyrðing Svíana er að þetta hjól eigi að duga gott betur en í fullt moto í MXGP keppni á fullu afli en ef tjúnnað niður, að þá eigi það að endast í allt að SEX KLUKKUSTUNDIR í t.d. slóðaakstri .


Hvað þarf til þess að þetta nái flugi hér heima?

Í raun held ég að það þurfi nú ekkert svo mikið til. Nú þegar hafa allir þessir gömlu karlar eins og ég keypt sér rafmagnshjól og þú þykir ekki maður með mönnum nema að þú eigir nýjustu og dýrustu týpuna af slíku inn í bílskúr og helst fleiri en eitt. Sem betur fer fyrir mig, að þá er ég ekki maður með mönnum þó ég kunni ágætlega við fólk eins og Pál Óskar (einn auli) og á ég bara einn fótstiginn fák sem er sjaldan brúkaður fyrir vikið. Þannig að reynslan af rafmagnshjólum hér heima er nú þegar orðin nokkuð góð og greinilegt að það er nokkur markaður fyrir þetta. Þannig að ég held að verð muni vera ráðandi þáttur í því hversu hratt þetta gæti breiðst út hér heima og já, stuðningur MSÍ við þetta því er kannski í sinni þröngustu merkingu ekki "mótorhjól". Ég held að ef MSÍ fer að setja upp sérstaka keppnisflokka fyrir t.d. rafmagnshjól og skiptir þá engu hvort um sé að ræða fjallahjól eða motocrosshjól, að þá myndi áhuginn glæðast hér heima. Já, kannski þarf MSÍ að fara í smá naflaskoðun og gera sér grein fyrir því að það er hugsanlega stór markaður keppanda nú þegar til í landinu sem á svo kölluð rafmagns fjallahjól sem hægt væri að blóðþurrka inn að skinni við að búa til keppnishald fyrir.


Þáttur ríkis og sveitarfélaga skiptir ekki síður máli í þessu sambandi en ef þetta blessaða ríkisvald sem allt vill mergsjúga myndi láta verða af því að rukka þessi aðflutningsgjöld að þá myndi verðið lækka um 30%. Ja, annað eins hefur nú verið gert fyrir bíltíkurnar... Svo er það þáttur sveitarfélaga, en með ákveðnum hvata og fjárhagsstuðningi væri hægt að stuðla að hraðari útskiptum á orkugjafa í þessu sporti ef uppbygging fylgdi í kjölfarið. Já, ætli málin varðandi árekstra vegna hávað við nágranna heyrði ekki sögunni til og það ætti að vera öllum sveitarfélögum kappsmál að styðja þessa íþróttagrein með þeim hætti að hún gæti blómstrað. Hugsanlega þarf þetta samtal að fara að eiga sér stað á milli núverandi aðildarfélaga MSÍ og sveitarfélaga strax í dag þar sem nokkrar brautir eiga nú þegar undir högg að sækja sökum kvartana frá nágrönnum.


Að lokum

En þegar allt er á botninn hvolft að þá verða það ekki gamlir, feitir, bitrir karlar eins og ég sem ákveða framtíð þessa sports. Ó, nei... Ný kynslóð mun vaxa úr grasi sem mun annað hvort taka þessari nýju tækni fagnandi eða setja núverandi starfsemi slíkar skorður að henni verður sjálfhætt. Já, ég og þú sem nenntir að lesa þennan pistill (by the way takk fyrir það) verðum ekki spurðir álits. Þetta er "pretty basic" eins og maðurinn sagði á slæmri íslensku. Ef þú ert ekki tilbúin að fylgja þróuninni og vera þátttakandi, að þá ertu jafn dauðadæmdur og risaeðlurnar á sínum tíma sem vissu ekki hvernig á sig stóð veðrið.


Lifið heil!

Recent Posts

See All

1 Comment


Elli Valur
Elli Valur
Dec 19, 2021

Mig dreymir um rafmagshjól því þá eru minni líkur á að gönguhrólfar pirrist yfir nærveru minni :) en mun samt sem aður sakna bensínhjólsins

Like
bottom of page