Akstur motocrosshjóla í þéttbýli er stranglega bönnuð, sérstaklega á göngustígum. Akstur slíkra hjóla er eingöngu heimilaður á viðurkenndum svæðum sem samþykkt hafa verið af yfirvöldum. Ef um ólögráða einstakling er að ræða, að þá er það á ábyrgð foreldra að tryggja að slíkt eigi sér ekki stað.
Því miður hefur orðið vart við unga drengi sem eru á motocrosshjólum þeysandi um stíga og götur bæjarins í Mosfellsbæ. Þetta er bagalegt og sérstaklega þegar nánast kortér er í sveitastjórnarkosningar sem fara fram 14 maí. Mér hefur alltaf þótt það undrun sæta hvað foreldrar þessara drengja virðast vera grandalaus um þetta athæfi eða finnst það bara allt í lagi. Ég vill ítreka það til foreldra að ef einstaklingur er ólögráða, að þá er það á ábyrgð þeirra (foreldra) að tryggja að einstaklingur virði lög og reglur.
“Akstur á göngustígum er með öllu bannaður í þéttbýli”
Akstur motocrosshjóla er eingöngu heimilar á sérstökum svæðum sem úthlutað hafa verið af yfirvöldum og ólögráða einstaklingar mega nýta sér þessi svæði undir eftirliti forráðamanna. Foreldrar eða lögráða einstaklingur ber að flytja hjólið á milli staða á þar til gerðri kerru. Eingöngu enduro torfæruhjól á númerum hafa heimildir til að aka innanbæjar, en að sjálfsögðu ekki á göngustígum.
Hver er refsingin ef ólögráða einstaklingur er tekin af lögreglu?
Ef þessir drengir eða forráðamenn þeirra vita ekki hvaða refsing þeir geta sætt, að þá er kannski við hæfi að rifja það upp. Ef um ólögráða einstakling er að ræða, að þá fer málið undantekningarlaust til barnaverndar sem tekur málið fyrir. Það þarf vart að nefna það að hér, að það er ekkert grín að fá barnaverndarnefnd á bakið. Foreldrar fá sekt fyrir athæfið og bílpróf verður seinkað hjá þeim sem á í hlut.
Hvert geta þeir þá farið?
Búið er að opna nánast allar brautir á suðvesturhorninu og má fara með þessa einstaklinga í Akrabraut upp á skaga, sandbrautina í Þorlákshöfn, Sólbrekku hjá afleggjaranum til Grindavíkur og brautina á Selfossi. Því miður er heimabraut þessara drengja lokuð af öryggisástæðum og verður vonandi opnuð fyrir júní byrjun. Einnig er frábær braut í Bolaöldum á vegum VÍK sem þeir geta nýtt sér, en hún verður opnuð á næstu dögum.
Að lokum
Ég biðla til þessara drengja sérstaklega að hugsa aðeins lengra en nefið nær. Þetta sport snýst um miklu meira en eitt stundar gaman og það að þetta sé komið í þennan farveg hér í bæ gerir ekkert annað en að skemma fyrir sportinu í heild.
Til foreldra þeirra vill ég segja að mér finnst stórmerkilegt að ungir einstaklingar fái hjól og séu algjörlega án eftirlits af þeirra hálfu um notkun. Okkar fjölskylda er búin að vera í þessu sporti síðan 2005 og aldrei fengu börn okkar að fara ein eða hjóla án eftirlits. Til viðbótar vill ég einnig árétta að það er ekki nóg að skutla þessum drengjum upp í braut. Þeir eru á ykkar ábyrgð og ykkur ber að tryggja öryggi þeirra sem þýðir að þið þurfið að vera á staðnum eða hafa vissu fyrir því að annar fullorðin hafi gengist við að fylgjast með þeim ef eitthvað kemur fyrir.
Comments