top of page
Writer's pictureSverrir Jonsson

Þriðja umferðin til Íslandsmeistara í motocrossi - Akureyri 2022

Þriðja umferðin til Íslandsmeistara í motocrossi fór fram laugardaginn 9 júlí og var bráðskemmtilegt mót haldið á vegum KKA á Akureyri. Um 90 keppendur voru skráðir til leiks en brautin er moldarbraut sem oft hefur ein af þeim skemmtilegri á Íslandi. Því miður var eitthvað um pústra og þurftu nokkrir frá að hverfa eftir að hafa lútið í mold. Sem betur fer, að þá reyndust meiðsli þeirra ekki alvarleg.


Það ríkir alltaf eftirvænting um keppnina á Akureyri ár hvert og þetta er það svæði sem oftast býður keppendum upp á hvaða besta veður og þennan laugardag var ekki skortur á blíðunni fyrir norðan. Brautin var í topp standi en slitnaði mjög hratt er leið á daginn. Tímatakan hófst um níuleytið og fyrsta moto-ið í kvennaflokki hófst upp úr ellefu. Keppni lauk svo formlega um fjögurleytið og voru keppendur þá búnir að keyra tímatöku plús þrjú moto yfir daginn og ekki laust við að þreyta væri farin að segja til sín hjá keppendum enda brautin orðin nokkuð slitin eftir daginn.


“Heimamaðurinn Einar Sigurðsson var hlutskarpastur í MX1, Eyþór Reynisson í MX2 og Sóley Sara M David sigraði í kvennaflokki. Enn sem fyrr var mikil keppni í MX2.

Það er margt mjög jákvætt hægt að skrifa um keppnina fyrir norðan og fyrir utan veðurblíðuna, að þá er mjög ánægjulegt að sjá gömul og ný andlit taka þátt í keppnum á vegum félagana. Heimamaðurinn Einar Sigurðsson settist aftur á hjól eftir hlé og gerði sér lítið fyrir með að sigra MX1 flokkinn. Einnig var mjög gaman að sjá þá bræður Hjálmar og Björgvin Jónsyni sem komu með fríðan hóp keppenda með sér að austan. Eyþór Reynisson var aftur með eftir að hafa tekið sér hlé í annarri umferð og ekki að sökum að spyrja, að hann rúllaði MX2 upp. Mikil barátta var í kvennaflokknum á milli Sóley Söru M David og Anítu Hauksdóttir. Það fór þó svo að lokum að Sóley Sara hafði betur og stefnir í æsispennandi einvígi þeirra á milli í sumar.


Sigurvegarar


Hér má sjá sigurvegara dagsins eftir hverjum flokk fyrir sig en nánari upplýsingar um hvert moto eða tímatöku má finna með að smella á þennan hlekk. Þar má einnig finna upplýsingar úr "hobbý" flokk en hér fyrir neðan birti ég eingöngu flokka sem gilda til Íslandsmeistara.


MX1 flokkur:

  1. Einar Sigurðsson

  2. Hjálmar Jónsson

  3. Gunnlaugur Karlsson

MX2 flokkur:

  1. Eyþór Reynisson

  2. Máni Freyr Pétursson

  3. Eiður Orri Pálmarsson

Unglingaflokkur (aldur 14-18 ára):

  1. Eric Máni Guðmundsson

  2. Alex Þór Einarsson

  3. Eiður Orri Pálsson

85 cc flokkur (aldur 10-14 ára):

  1. Gestur Natan Gestsson

  2. Kári Siguringason

  3. Andri Berg Jóhannsson

Kvennaflokkur (opin flokkur):

  1. Sóley Sara M David

  2. Aníta Hauksdóttir

  3. Ásta Petrea Sívertsen Hannesdóttir

Kvennaflokkur 30 plús (eldri en 30 ára):

  1. Björk Erlingsdóttir

  2. Elva Hjálmarsdóttir

  3. Theodóra Björk Heimisdóttir

40 plús (opin flokkur eldri en 40 ára):

  1. Ragnar Ingi Stefánsson

  2. Sigurður Hjartar Magnússon


Hægt er að skoða frekari úrslit með að smella hér.



Hér á myndinni má sjá þá sem leiddu eftir ræsingu í MX1, MX2 og MX2 hobbý en þetta er í fyrstu beygju eftir ræsingu og þarna má sjá Eyþór Reynisson fremstan.


Mig langar samt eiginlega að tala aðeins um þá nýliðun sem er að eiga sér stað í sportinu. Barnastarf VÍK skilar ávallt nokkrum keppendum áfram úr yngstu aldurshópum en það sem hefur vakið meiri athygli hjá mér þetta árið er sá fjöldi keppenda sem kemur orðið utan af landi. Má þar nefna að norðan og að austan. Sú gróska sem virðist vera að eiga sér staða þarna úti á landi er svo sannarlega að skila sér og er tekið eftir því. Setja þessir keppendur skemmtilegan svip á keppnina. Brjáluðu Bínu finnst í það minnsta ekkert leiðinlegt að faðma drengina að norðan :) Það er líka greinilegt að þeir bræður Hjálmar og Björgvin Jónsson hafa eitthvað smitað vel út frá sér fyrir austan og einnig má sjá í son Hjálmars, Jón Vilberg Hjálmarson á ráslínu. Ef drengurinn líkist eitthvað föður sínum að þá á eftir að verða mjög gaman að fylgjast með honum í framtíðinni, en ég hef alltaf hrifist af Hjálmari og Björgvini sem ökumönnum. Einnig var gaman að sjá Elvu Hjálmarsdóttir sem hefur hingað til einbeitt sér af endurokeppnum taka þátt í motocrossinu.


Fjórða umferð fer fram á Selfossi 23 júlí

Næsta umferð í Íslandsmeistaramótinu í motocrossi fer fram á svæði Motocrossdeildar UMFS á Selfossi laugardaginn 23 júlí og er nú þegar hægt að skrá sig til leiks á heimasíðu MSÍ Sport, www.msisport.is. Hlökkum við til að sjá ykkur þar og vonandi heldur þátttakendum áfram að fjölga og hefur innkoman í ár í fjölda keppenda sem koma að norðan sett skemmtilegan brag á keppninni fyrir utan að það er alltaf skemmtilegra að vera með fleiri þátttakendur. Vonandi verður sú keppni slysalaus.


Til allra sjálfboðaliða sem komu að keppnistandinu um helgina og að sjálfsögðu ykkur, keppendum þar sem án ykkar væri engin keppni, að þá vill ég segja "Takk fyrir okkur" og takk fyrir þá vinnu sem þið leggið á ykkur svo við og aðrir getum leikið okkur.


Hægt er að sjá myndir frá keppninni með að smella á þennan hlekk. Vonandi gest mér tími til að setja saman smá myndband frá keppninni á næstunni og birta í komandi viku.

272 views0 comments

Comments


bottom of page