top of page
Writer's pictureSverrir Jonsson

Önnur umferð til Íslandsmeistara í motocrossi - Akranesi 2024

Önnur umferð til Íslandsmeistara í motocrossi fór fram laugardaginn 29 júní og var bráðskemmtilegt mót haldið á vegum Vélíþróttaklúbbs Akranes (VIFA) upp á skaga. Keppnin fór fram á Akranesi í brakandi blíður og voru aðstæður til keppni mjög góðar framan af en brautin slitnaði hratt og varð erfið eftir því sem á leið. Einnig var orðið mikið ryk sem byrgði keppendum sýn og þá sérstaklega í startinu.


Tæplega 80 keppendur voru skráðir til leiks. MX unglinga var stærstur af einstökum flokkum að ræða og er hasarinn mikill þegar keppni stendur sem hæst.


Í þetta skipti var veðurguðinn okkur mjög hliðhollur og var einróma veðurblíða þennan dag, steikjandi hiti og nánast alveg logn, sem gerist ekki oft. Tímatakan hófst um níuleytið og fyrsta moto-ið í kvennaflokki hófst upp úr ellefu. Keppni lauk svo formlega um fimmleytið og voru keppendur þá búnir að keyra tímatöku plús þrjú moto yfir daginn og ekki laust við að þreyta væri farin að segja til sín hjá keppendum enda brautin orðin nokkuð slitin eftir daginn.


“Eiður Orri Pálmarson sigraði auðveldlega í MX1, Eric Máni Guðmundsson í MX2 og Aníta Hauksdóttir sigraði í kvennaflokki.

Eiður Orri Pálmarson verður erfiður í sumar og er hann á fullu húsi stiga eftir fyrstu tvær keppnir ársins. Drengurinn er hreint út sagt með fáranlegar góðar ræsingar alltaf hreint og nánast undantekningarlaust fyrstur inn í fyrstu beygju. Máni Freyr Pétursson og Alexander Adam Kuc börðust grimmt, það grimmt að þeim hljóp kapp í kinn með þeim afleiðingum að "Lexi" laut í gras í tvígang eftir "block pass" af hálfu Mána. Urðu einhver orðaskipti á milli manna í lok síðasta motos og vona ég að þeir láti það duga í sumar og einbeiti sér að því að sigra í stað þess að hugsa stöðugt um andstæðinginn.


Það er skemmtilegt að minnast á það að í fyrsta sinn í sögu motocrossins á Íslandi eru keppendur á 65cc mættir til leiks, en þetta fyrirkomulag hefur lengi verið við lýði erlendis og við hæfi að taka það upp hér líka. Til leiks á Akranesi voru sex keppendur skráðir og eru þeir reynslunni ríkari eftir fyrstu tvær keppnir ársins og mun þessi reynsla verða þeim dýrmæt þegar fram líða stundir. Aron Dagur Júlíusson var hlutskarpastur eftir harða keppni við Olivier Cegielko. Þessir tveir eru rosalegir og mjög skemmtilegt að fylgjast með þeim. Í þriðja sæti varð Máni Mjölnir Guðbjartsson og hver veit nema að hann fari að fylgja hinum tveim áður nefndum grimmt í lok sumars.


Mikil barátta var í unglingaflokknum en þar er keppendum tvískipt og er sérstök stigakeppni fyrir þá sem keppa á 144-125cc tvígengishjóli og svo aftur á móti MX2 þar sem 250cc fjórgengishjólin eru alls ráðandi. Í tvígengisflokknum var það Kári Siguringason hlutskarpastur en á hæla hans voru þeir Ketill Freyr Eggertsson og Andri Berg Jóhannsson. Í MX2 unglinga var það Alex Þór Einarsson sem landaði sigri að lokum eftir harða baráttu við félaga sína að norða, þá Sigurð Bjarnason og Núma Möller Pétursson. Í MX2 var það Eric Máni Guðmundsson var sterkastur og sigraði nokkuð örugglega.


Í kvennaflokknum var það Anítu Hauksdóttir sem sigraði örugglega og þurfa aðrir keppendur að fara að girða sig í brók ef þær ætla að geta veitt henni verðuga keppni í ár. Eingöngu veitt viðurkenning fyrir "heldri" konur miðast við 40+. Varð það Björk Erlingsdóttir sem varð hlutskörpust og leit "konukindin" fjandi vel út á nýja Fantic XXF250 hjólinu og veitti þeim yngri harðvítuga keppni, en brjálaða Bína hefur ekið samfleytt á Yamaha síðustu 17 ár. Endaði brjálaða Bína fjórða eftir daginn í sameiginlegum kvennaflokki, aðeins 5 stigum frá verðlaunasæti.


Sigurvegarar


Hér má sjá sigurvegara dagsins eftir hverjum flokk fyrir sig en nánari upplýsingar um hvert moto eða tímatöku má finna með að smella á þennan hlekk. Þar má einnig finna upplýsingar úr "hobbý" flokk en hér fyrir neðan birti ég eingöngu flokka sem gilda til Íslandsmeistara.


MX1 flokkur:

  1. Eiður Orri Pálmarsson

  2. Máni Freyr Pétursson

  3. Alexander Adam Kuc

MX2 flokkur:

  1. Eric Máni Guðmundsson

  2. Leon Pétursson

  3. Eiður Pálsson

Unglingaflokkur (aldur 14-18 ára, 144-125cc tvígengis):

  1. Kári Siguringason

  2. Ketill Freyr Eggertsson

  3. Andri Berg Jóhannsson

MX2 - Unglinga (aldur 14-18 ára, 250cc fjórgengis):

  1. Alex Þór Einarsson

  2. Sigurður Bjarnason

  3. Númi Möller Pétursson

85 cc flokkur (aldur 12-14 ára):

  1. Arnór Elí Vignisson

  2. Ísmeal Mikaelsson

  3. Halldór Sverrir Einarsson

65 cc flokkur (aldur 10-12 ára):

  1. Aron Dagur Júlíusson

  2. Olivier Cegielko

  3. Máni Mjölnir Guðbjartsson

Kvennaflokkur (opin flokkur):

  1. Aníta Hauksdóttir

  2. Eva Karen Jóhannsdóttir

  3. Ásta Petrea Sívertsen


Hægt er að skoða frekari úrslit með að smella hér. Nánar upplýsingar má finna á síðu Mótorhjóla & vélsléðasambands Íslands, www.msisport.is.



Hér á myndinni má sjá Björk Erlingsdóttir í fyrsta moto-i dagsins á nýja hjólinu sínu og er ég ekki frá því að það hafi blásið smá lífi í þá gömlu.


Tekið skal fram að eingöngu voru teknar ljósmyndir í fyrsta moto-i og ef þú áttir ekki góðan dag eða varst ekki með af einhverjum sökum, að þá er ekki til mynd af þér. Ég hef tekið myndir óslitið síðan 2006 í sjálfboðavinnu og er mikil þreyta komin í karlinn. Þó ég taki eingöngu úr fyrsta moto-i dagsins, að þá eru þetta samt um þrjúþúsund myndir að fara í gegnum. Að hripa eitthvað niður eftir hverja keppni er eitthvað sem ég get ekki lofað því andinn þarf að vera til staðar.


Sárt saknað...

Það eru alltaf einhverjir sem leggja skónna á þessa frægu hillu í lok hverst tímabils og svo einhverjir sem ákveða að hvíla sökum meiðsla. Vekur athygli mína að þær skvísur sem lögðu til breytingar á kvennaflokknum þetta árið, eru ekki á meðal þátttakanda :)


Akureyri 20 júlí

Næsta keppni fer fram á Akureyri í frábæru og bráðskemmtilegu svæði KKA manna. Hlökkum til að sjá sem flesta fyrir norðan og veit ég að margir eru á leið norður um helgina til að æfa sig.


Til allra sjálfboðaliða sem komu að keppnistandinu um helgina og að sjálfsögðu ykkur, keppendum þar sem án ykkar væri engin keppni, að þá vill ég segja "Takk fyrir okkur" og takk fyrir þá vinnu sem þið leggið á ykkur svo við og aðrir getum leikið okkur.


Hægt er að sjá myndir frá keppninni með að smella á þennan hlekk og færist þú þá á svæði mitt hjá Flickr en motosport.is síðan er komin í geymslu vandræði hjá núverandi þjónustuaðila með tilheyrandi plássleysi að ég neyðist til að flytja ykkur yfir á Flickr svæði mitt. Hugsanlega þurfið þið að lifa við þetta í sumar en að uppfæra hjá þjónustuaðila kostar litlar 160 þúsund ISK á núverandi gengi með 50% tilboðs afslætti...

Comments


bottom of page